Friday, February 16, 2018

Aðalfundur DíaMats verður 28. febrúar

DíaMat heldur árlegan aðalfund sinn miðvikudagskvöldið 28. febrúar næstkomandi. Hann verður haldinn í MÍR-salnum, Hverfisgötu 105. Fyrst, kl. 19:30, er díalektísk messa, þar sem Ólafur Grétar Gunnarsson, fjölskyldu- og hjónaráðgjafi, kynnir bókina Að vita hvað konur vilja: Vísindalega sönnuð leyndarmál um samskipti kynjanna. Umræður.
Kl. 20:30 er aðalfundur settur. Dagskrá hans er skv. lögum félagsins. Ráðgert er að fundarstörfum verði lokið fyrir kl. 22:30. Á aðalfundi eiga atkvæðisrétt allir sem skráðir voru í félagið fyrir 1. janúar sl.

Monday, February 12, 2018

Díalektísk messa um fátækt 15. febrúar

Díalektísk messa febrúarmánaðar (hin fyrri af tveim) verður haldin í Friðarhúsi, Njálsgötu 87, fimmtudaginn 15. febrúar kl. 20-22. Laufey Ólafsdóttir og Ásta Dís Guðjónsdóttir, í samtökunum PEPP, koma og innleiða umræður um fátækt á Íslandi.

Monday, January 29, 2018

Af öldungaráðsfundi DíaMats

Skv. lögum DíaMats fundaði Öldungaráð sl. fimmtudagskvöld og kaus þrjá stjórnarmenn í stjórn komandi starfsárs. Rétt kjörin í stjórn voru: Elín Helgadóttir, Vésteinn Valgarðsson og Þorvaldur Þorvaldsson.

Thursday, January 25, 2018

Janúarmessa & öldungaráð

Fimmtudaginn 25. janúar heldur DíaMat díalektíska messu janúarmánaðar. Staður: MÍR-salurinn, Hverfisgötu 105 (aðgengi fyrir hjólastóla). Stund: kl. 19:30.

Þorvaldur Þorvaldsson ræðir lærdóma af rússnesku byltingunni og leggur út af bókinni "Tíu dögum sem skóku heiminn" eftir John Reed, sem er nýkomin út á íslensku, í þýðingu hans. Bókin verður fáanleg á staðnum fyrir áhugasama. Boðið verður upp á kaffi og þorramat!

Strax að lokinni messu hefst öldungaráðsfundur DíaMats, sem er liður í undirbúningi aðalfundar. Allir félagar mega sitja fundinn. Atkvæðisrétt hafa allir félagar sem skráðir voru í félagið fyrir 28. janúar 2017.

Friday, December 22, 2017

Díalektísk messa og opinn stjórnarfundur 29. desember

DíaMat heldur díalektíska messu og opinn stjórnarfund föstudaginn 29. desember 2017 kl. 17-18 og 18-19 MÍR-salnum, Hverfisgötu 105 (þar er aðgengi fyrir hjólastóla)

17-18 Díalektísk messa: Björgvin R. Leifsson ræðir um gervivísindi og gerir nokkrum hindurvitnum með vísindalegu yfirbragði skil, svo sem frösunum: "Þetta er bara kenning" og "Það er tölfræðilega sannað" eða staðhæfingum eins og "MSG er eitur". Eftir framsögu hans verða umræður. Verið velkomin og bjóðið vinum og vandamönnum með ykkur!

18-19 Opinn stjórnarfundur: Opinn öllum félögum DíaMats (hægt að skrá sig á staðnum!)
Dagskrá:
1. Undirbúningur aðalfundar
2. Framundan hjá félaginu
3. Önnur mál

Þessi samkoma verður barnvæn eins og allar okkar samkomur!

Thursday, December 21, 2017

Byltingardagatalið fyrir 2018

Á dögunum kom út Byltingardagatalið fyrir árið 2018, en DíaMat er eitt af fjórum félögum sem standa að útgáfu þess.

Dagatalið hefur að geyma ógrynni upplýsinga um merkisdaga úr sögu stéttabaráttunnar, friðarbaráttunnar, jafnréttisbaráttunnar og baráttunnar gegn heimsvaldastefnunni, auk fæðingar- og dánardaga þekktra einstaklinga úr hinni miklu baráttu alþýðunnar.

Forsíðumyndin er af Karli Marx, en hann hefði einmitt orðið 200 ára vorið 2018. Hægt er að nálgast dagatal hjá félaginu fyrir aðeins 1500 krónur (eða fjögur stykki fyrir 5000).

Hafið samband, t.d. í tölvupósti sem endar á "yahoo.com", byrjar á "vangaveltur" og hefur merkið "@" þar á milli.

Gleðilegar vetrarsólstöður

Í dag er stysti dagur ársins, á morgun fer daginn aftur að lengja hér á norðurhveli.
DíaMat hvetur félaga sína til að halda upp á þennan dag á einhvern hátt, en ýmsar samkomur eru haldnar í tilefni dagsins.