NÁNAR UM ATHAFNIR DÍAMATS

Ritað hefur Vésteinn Valgarðsson, formaður DíaMats, í marsbyrjun 2016


Inntakið í athöfnum DíaMats er díalektísk efnishyggjusýn á manninn sem einstakling, sem fjölskyldu og sem samfélag. Umgjörð þeirra byggist á hefðum lýðræðislegra funda. Að öðru leyti munu athafnirnar draga dám af borgaralegum athöfnum sem þegar eru stundaðar, en taka skal fram að ekki er komin hefð á athafnir í anda díalektískrar efnishyggju. Það er vegna þess að lífsskoðunarfélög af okkar tæi eru hvergi starfandi svo okkur sé kunnugt, þó svo að margir aðhyllist díalektíska efnishyggju í heiminum, enda búa trú- og lífsskoðunarfélög víðast við aðrar reglur en á Íslandi.

Athafnamaður

Athafnamaður félagsins stjórnar athöfnum. Það getur verið forstöðumaður eða athafnamaður úr röðum félagsmanna, sem stjórn hefur einróma samþykkt til þessa hlutverks í umboði forstöðumanns, og fengið samþykki innanríkisráðuneytisins. Athafnir félagsins standa félagsmönnum til boða ef þeir æskja þess. Félagið krefur félagsmenn sína ekki um þátttöku í neinum athöfnum. Athafnir félagsins verða að jafnaði látlausar og haldnar af virðingu fyrir alvöru lífsins. Aðkoma félagsins einskorðast ekki við sjálfar athafnirnar, heldur mun það bjóða félagsmönnum persónulegan og félagslegan stuðning eða fræðslu eftir þörfum og atvikum. Athafnamaður ber ábyrgð á að skila upplýsingum til þjóðskrár um þær athafnir sem varða opinbera skráningu þeirra sem í hlut eiga.

Félagið lítur á fæðingu og dauða sem úrslitaatriði í lífi hverrar manneskju þar sem enginn kemst undan þeim og þau eiga sér líffræðilegar en ekki félagslegar ástæður. Þess vegna eru nafngjafir og útfarir meginathafnir félagsins. Félagið mun einnig annast manndómsvígslur og hjónavígslur, en þar sem þær eru mannasetningar, og valkvæðar sem slíkar, eru þær ekki í sama fyrirrúmi og nafngjöfin og útförin.

Nafngjöf

Við nafngjöf heldur athafnamaður ræðu þar sem hann tekur saman hollráð um uppeldi og atlæti barna og skyldur nánustu ættingja og vina og samfélagsins alls. Þá innir hann forráðamenn barnsins eftir því hvað það eigi að heita og lýsir því svo að barnið heiti það og kallar viðstadda votta að því. Fyrir utan nafngjafarathöfnina sjálfa mun félagið styðja við nýbakaða foreldra með fræðslu, svo sem með því að gefa þeim bækur eða bjóða þeim á námskeið, um uppeldismál og þarfir og velferð barna.

Útför

Við útför heldur athafnamaður ræðu þar sem hann fer yfir mikilsverð atriði úr lífi hins látna, með áherslu á hvað eftirlifendur geti lært af því og hvernig þeir geti farið með missi sinn. Að öðru leyti ráða aðstandendur hins látna því hvernig athöfnin fer fram. Til viðbótar mun félagið styðja fólk í sorgarferli, til dæmis aðstoða fólk við að fá viðtöl við sálfræðing ef það þarf.

Manndómsvígsla

Fyrir díalektíska manndómsvígslu skal sá, sem ætlar að undirgangast hana, fyrst tileinka sér díalektíska og sögulega efnishyggju og lærdóma hennar undir handleiðslu sem félagið sér fyrir. Hann skal skilja díalektíska sýn á réttlæti og ranglæti, á siðferði, á ábyrgð og á þjóðfélagsleg mál og vilja haga lífi sínu eftir þessum skilningi. Manndómsvígslan fer fram líkt og fundur, þar sem athafnamaður er sem fundarstjóri: Hann setur fundinn. Því næst fær sá orðið, sem ætlar að taka manndómsvígsluna, og segir viðstöddum frá því sem hann hefur lært og skilið í díalektískri og sögulegri efnishyggju og samhengi þess við sjálft lífið og hvernig því er lifað. Þegar hann hefur lokið máli sínu opnar athafnamaður umræður og gefur viðstöddum kost á að segja skoðun sína. Eins og á díalektískum fundi er tilgangur umræðnanna að bæta skilning allra viðstaddra. Manndómsvígsluþeginn á síðasta orðið í umræðunum og þegar hann hefur lokið máli sínu ber athafnamaðurinn hann undir fundarmenn, sem samþykkja hann með lófataki. Neðra aldurstakmark fyrir manndómsvígslu DíaMats skal vera 13 ár en efri mörk engin.

Hjónaband

Afstaða félagsins til hjónavígslu er í grunninn til sú, að hjónaband eigi aldagamlar rætur í félagslegum ójöfnuði og eignarrétti karla á konum. Félagið heldur þess vegna ekki beinlínis upp á hjónabandið sem stofnun, en viðurkennir engu að síður að þar sem það er til, og þar sem fólk vill gjarnan ganga í hjónaband og umgjörð samfélagsins gerir auk þess ráð fyrir því, meðal annars hvað varðar forræði yfir börnum og arf, sé sjálfsagt að veita þjónustu við hjónabandsathafnir ef fólk æskir þess og vill frekar þjónustu félagins heldur en sýslumanna eða annarra trú- eða lífsskoðunarfélaga.

Við díalektíska hjónavígslu stjórnar athafnamaður athöfninni. Athafnamaður tekur sér stöðu milli hjónaefnanna frammi fyrir gestunum. Athafamaður býður gesti velkomna og heldur ræðu um samstöðu og tryggð og traust í sambandi fólks, og um þær skyldur sem það leggur þeim á herðar í samfélaginu. Hann fjallar um díalektískt samband fólksins sem er gefið saman, hvernig það hefur áhrif á hvort annað og hvernig parið á díalektískt samband við samfélagið og fjölskylduna, vegna gagnkvæmra félagslegra áhrifa. Síðan spyr hann hjónaefnin hvort þau vilji verða hjón, og þegar þau játa því lýsir hann þau hjón í krafti embættis síns. Athafnamaðurinn gengur frá hjónavígsluskýrslu sem svaramenn votta.

Ef hjón innan félagsins vilja fá hjónabandsráðgjöf eða ráðgjöf um annað sem viðkemur sambandi þeirra, mun félagið bjóða þeim stuðning, til dæmis með því að útvega viðtöl við hjónabandsráðgjafa.

Á hátíðisdögum og við önnur tilefni

Viðhöfn félagsins á hátíðisdögum þess fer eftir tilefninu. Áttunda mars, fyrsta maí, sjötta ágúst, sjöunda nóvember og fyrsta desember taka félagarnir þátt í fundum af tilefni dagsins. Vetrarsólstöðum er fagnað með jólahaldi. Sumarsólstöðum og jafndægrum fagnar hver á sinn hátt. Átjánda mars er valdatöku alþýðunnar í Frakklandi minnst og gerir það hver á sinn hátt.

Aðrar reglulegar samkomur félagsins fara þannig fram að framsögumaður er fenginn til að halda framsögu, þar sem hann velur sér umfjöllunarefni og leggur út af því í díalektískum skilningi: hvernig megi túlka það, hvað megi læra af því og hvernig sá lærdómur gagnist til þess að bæta heiminn. Síðan taka við almennar umræður, sem athafnamaður stjórnar, þar sem viðstaddir geta sagt sína skoðun, og er tilgangur umræðnanna og alls fundarins sá, að bæta skilning og þekkingu þátttakenda á efninu.

Líf í anda díalektískrar efnishyggju

DíaMat trúir því ekki að menn réttlætist af skoðunum sínum eða þátttöku í athöfnum, heldur séu hegðunin og verkin eini mælikvarðinn. Þess vegna iðkar fólk díalektíska efnishyggju með því að starfa að því sem það vill að verði, og með reynslu, menntun og gagnrýninni hugsun.