Wednesday, October 18, 2017

Aðskilnaður ríkis og kirkju, fundur nk. mánudagskvöld

Vinir okkar í Siðmennt halda þennan "Efast á kránni"-viðburð næsta mánudagskvöld:
Er meirihluti á þingi fyrir aðskilnaði ríkis og kirkju? Af hverju er ekki fyrir löngu búið að ganga í það þegar yfir 70% þjóðarinnar er fylgjandi? Á að heimila kristnar trúarathafnir í opinberum leik- og grunnskólum? Eiga opinberir skólar að taka þátt í trúaruppeldi barna?
Fulltrúar VG, Sjálfstæðisflokks, Samfylkingar og Pírata (stærstu flokkarnir miðað við kosningaspá Kjarnans) ræða ofangreindar spurningar auk þess að ræða spurningar sem snerta lífsskoðanir og mannréttindi.
KEX hostel ... mánudagskvöldið 23. október ... kl. 20:00.

Monday, October 2, 2017

Styrkur til Solaris - hjálparsamtaka fyrir hælisleitendur og flóttafólk á Íslandi

Vonandi hafa allir átt ánægjuleg nýliðin jafndægur á hausti.

Stjórn DíaMats ákvað á dögunum að úthluta fyrsta styrk úr styrktarsjóði félagsins. Ákveðið var að styrkja Solaris - hjálparsamtök fyrir hælisleitendur og flóttafólk á Íslandi um 15.000 krónur.
Markmið SOLARIS er að stuðla að því að hælisleitendur og flóttafólk á Íslandi búi við mannúð, mannlega reisn, mannréttindi og önnur grundvallarréttindi sem og réttlæti á við aðra þegna landsins. Tilgangur SOLARIS er að bregðast við þeirri neyð sem hælisleitendur og flóttafólk býr við víða á Íslandi, m.a. í formi bágra aðstæðna, að þrýsta á breytingar í málefnum hælisleitenda og flóttafólks í landinu og að berjast fyrir bættri stöðu þeirra, auknum réttindum og betra aðgengi, m.a. að nauðsynlegri þjónustu. Það hyggst SOLARIS gera í samstarfi við almenning, yfirvöld og önnur samtök sem vinna að sama markmiði.
Peningarnir koma frá sóknargjöldunum sem DíaMat fær úr ríkissjóði, vissa upphæð fyrir hvern skráðan félaga. Hver sem skráir sig getur því stuðlað að því að styrkir sem þessi verði stærri og/eða tíðari í framtíðinni.

Friday, September 22, 2017

Þriðjudag 26/9: Díalektísk messa um geðheilsu feðra

  Þriðjudag 26. september kl. 17 heldur DíaMat díalektíska messu í Friðarhúsi í Reykjavík, Njálsgötu 87.
  Ólafur Grétar
  Gunnarsson

     Framsögumaður er Ólafur Grétar Gunnarsson, fjölskyldu- og hjónaráðgjafi, umræðuefnið er:
     Þar sem feður hafa mikil áhrif á geðheilsu barna, er ekki kominn tími að huga að geðheilsu feðra? 

      Þessi messa verður barnvæn, eins og allir okkar fundir, þannig að ef þið gætið barna, takið þau bara með.
       Að venju verða líflegar og fróðlegar umræður um efnið.

Tuesday, September 5, 2017

Díalektísk messa á Fundi fólksins

DíaMat verður öðru sinni þátttakandi í Fundi fólksins, sem í ár er haldinn í Hofi á Akureyri: Díalektísk messa í salnum Setbergi kl. 14:00-14:50 á laugardaginn, 9. september. Þar eð þessi messa verður einkum haldin í kynningarskyni mun hún að mestu snúast um díalektíska efnishyggju sem slíka, sem og starf félagsins. Boðið verður upp á messukaffi. Vonumst til að sjá sem flesta!

Friday, August 18, 2017

Díalektísk útimessa á Menningarnótt

DíaMat verður með viðburð á Menningarnótt: díalektíska útimessu. Hún mun standa frá kl. 13 til kl. 14 og verður á Arnarhóli, við jaðar róluvallarins.

Á díalektísku útimessunni mun forstöðumaður DíaMats segja frá félaginu og starfsemi þess, en einkum frá díalektískri og sögulegri efnishyggju.

Að framsögu lokinni verða frjálsar, fjörugar og fróðlegar umræður sem hafa þann tilgang að allir viðstaddir verði nokkru vísari.

Hægt verður að skrá sig í félagið á staðnum og einnig verður hægt að nálgast splunkunýja kynningarbæklinga félagsins, sem upplagt er að dreifa til vina og vandamanna til að hjálpa félaginu að kynna sig.

Boðið verður upp á messukaffi og við vonumst til að sjá ykkur sem flest.

Friday, June 23, 2017

Díalektísk messa þriðjudag 27. júní


  Þriðjudagskvöldið 27. júní kl. 20 verður næsta "messa" DíaMats.
  Að þessu sinni verður litið meira í eigin barm en í undanförnum messum, þar sem efni kvöldsins er sjálft félagið, tilgangur þess og starfsemi og hvað er framundan næstu misserin.
   
  Vésteinn Valgarðsson opnar umræðuna með hugvekju, síðan taka við almennar umræður um efnið.
   
  "Messan" verður í Friðarhúsi á Njálsgötu 87, hún hefst kl. 20 og ráðgert er að henni ljúki kl. 21. Allir sem koma með friði eru velkomnir. Gjörið svo vel og takið með ykkur gesti.

Wednesday, June 21, 2017

Gleðilegar sumarsólstöður

DíaMat -- lífsskoðunarfélag um díalektíska efnishyggju býður gleðilegar sumarsólstöður og hvetur til að þeim sé fagnað með vinum eða fjölskyldu á viðeigandi hátt.